Afmælisbarn dagsins: Væri betri fyrirliði en Einar Smári

Dagurinn í dag er mikill hátíðardagur hjá Sindrafréttum. Atli Arnarson, betur þekktur sem ísbjörninn, á nefnilega afmæli. Sindrafréttir riðu á vaðið, þefuðu drenginn uppi og þvinguðu hann í örstutt viðtal, en hann vann þá hörðum höndum að því að mála Gömlubúð. Tuttugasta og fjórða aldursárið virðist ekki byrja illa hjá þessari mennsku mulningsvél, en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er hann í hörkuformi og hefur sjaldan litið betur út. Þessi dagur er þó lítið frábrugðinn öðrum dögum að sögn Atla. „Maður er í aðeins betra skapi en venjulega. Alltaf gaman að eiga afmæli.“

Nýverið lagði Halldór Steinar Kristjánsson skóna á hilluna, og losnaði þá staða þriðja fyrirliða Sindra. Atli hlaut þann titil og segist lifa sig vel inn í hlutverkið. „Mér leið alltaf best sem djammfyrirliða, en það er ekki hægt að vera bæði. Ég verð víst að láta djammfyrirliðabandið ganga yfir til Ogga í sumar.“ segir Atli, sem lengi vel hélt því bandi traustu taki. „Þetta verður hátíðleg athöfn þar sem ég, ásamt Davíð Gunnarssyni og Sigfinni Björnssyni, munum krýna hann þessari nýju tign.“ Atli segist þó strax vera farinn að venjast þriðja fyrirliðabandi liðsins, og segir sig eiga mjög auðvelt með að höndla pressuna. „Þetta er mjög fínt. Ábyrgðarstaða, það er eitthvað sem ég ræð við. Ég skil samt ekki hversvegna Einar Smári er með band númer 1. Ég væri vafalaust betri fyrirliði en hann.“

Aðspurður um gengi Sindraliðsins í sumar segist Atli vera mjög sáttur. „Þetta var sjeikí til að byrja með. Hópurinn er stór, og þetta þarf að mótast. Menn þurfa að ná saman.“ Hópur Sindramanna var á víð og dreif um landið, en nú eru loksins allir mættir á einn og sama staðinn, Höfn í Hornafirði. „Mér líður mjög vel með þetta núna. Hægt og rólega byrjar allt að smella, og ég er fullviss um að við séum ekki búnir að toppa ennþá. Þetta verður bara betra. Liðið er mjög öflugt og mikil samkeppni um öll sæti. Þið sjáið það að ísbjörninn er á bekknum.“

Sögusagnir hafa gengið um bæinn um svokallað undrameðal sem kallast markasmyrsl. Forvitni leikur í hugum fólks um að fá að kynnast þessu fyrirbæri betur, en fáir þekkja gæðaefni betur en Atli Arnarson. Sindrafréttir könnuðu málið.

„Þetta er eitthvað sem ég hef verið að malla heima hjá mér í potti um áraraðir. Ég hef safnað saman ótrúlegustu hlutum til að þróa þetta, og er að verða dottinn á endanlega uppskrift. Ég ætla þó ekki að gefa hana upp, en meðal annars hef ég notað hár úr Jesú og hor úr Óla Stefáni.“ sagði Atli aðspurður um efnið. Atli hefur makað þessu smyrsli á sig í þó nokkrum leikjum, og hefur aldrei mistekist að skora eftir notkun þess. Hann uppljóstraði einum af lykilatriðunum í því að virkja efnið. „Að hafa trú skiptir öllu máli. Án trúar er smyrslið ónothæft.“

Að lokum sendir Atli shoutout til stuðningsmannaklúbbsins Berta Bæjó. „Algjörlega nauðsynlegt að hafa svona í stúkunni. Til fyrirmyndar!“

[image src=”http://www.sindrafrettir.is/wp-content/uploads/2013/05/atli_arnarson.jpg” lightbox=”yes” align=”left”]

Be the first to comment

Leave a Reply