Sendur í æfingabúðir til Spánar: Viðtal við Jóhann Berg Kiesel

Jóhann Berg Kiesel þarf vart að kynna fyrir stuðningsmönnum Sindra, enda hefur þessi 23 ára gamli markvörður verið allt í öllu hjá meistaraflokki síðan árið 2007. Hann hefur að vísu þurft að glíma við síendurtekin meiðsli í öxl frá blautu barnsbeini, allt frá því að hann datt úr rólu á Lönguhólum, en hann vonast þó til þess að þau muni ekki koma til með að hafa áhrif á sig þetta sumarið. Jóhann lék síðast leik í byrjun apríl þegar hann hélt hreinu í 0-1 sigri Sindra á móti Hamar í deildarbikarnum. En hvar er hann í dag? Hversvegna höfum við ekki fengið að sjá til hans að undanförnu? Sindrafréttir könnuðu málið.

„Þetta ævintýri hófst allt eftir leikinn gegn Hamar,“ sagði Jóhann Bergur í símaviðtali við Sindrafréttir í dag. „Óli Stefán og Valdi höfðu áhyggjur af öxlinni, og sendu mig í æfingabúðir til Spánar. Þar er einn færasti markmannsþjálfari heimsins, Jorge Navarro. Ótrúlegur maður. Í gegnum sinn feril hefur hann búið til menn á borð við Casillas, De Gea og Oliver Kahn í bakgarðinum sínum hér á Bene.“

Jóhann Bergur dvelur nú á lúxushóteli á Benedorm þar sem hann fær stífa þjálfun. Fyrir utan æfingar með Jorge Navarro, var fitness þjálfari sendur á vettvang, og dvelur hann með Jóhanni á hótelinu. „Æfingar fara allar fram í gamla bænum hér á Bene, en þar býr Jorge. Frá hótelinu eru það 28 km aðra leið, sem ég skokka á hverjum einasta degi. Vaxtarræktartröllið og fitnessgoðið Elmar „grjót“ Eysteinsson eltir mig þennan spöl og sér um að halda púlsinum í botni. Við eyðum gríðarlegum tíma í gymminu. Bæði á morgnanna og kvöldin. Þetta eru endalaus átök.“

Í ferðum sínum um bæinn hefur Jóhann einnig verið að fylgjast með efnilegum Spánverjum sem gætu gengið í raðir Sindra í framtíðinni. „Það kemur mér á óvart hvað hér er lítið úrval af leikmönnum. Ég hélt að Spánverjar væru miklu betri í fótbolta en raun ber vitni. Það hefur einn maður heillað mig, en það er götustrákurinn Jesus. Hann sér fyrir fjölskyldu sinni með því að leika listir sínar með fótbolta á götunni.“ Jóhann segist hafa sent skýrslur á stjórn Sindra, og segir jafnframt að nú sé verið að reyna að útvega Jesus vinnu hjá Skinney-Þinganes.

Hótelið sem Jóhann dvelur á er ekki af verri endanum, enda 5 stjörnu paradís þarna á ferð með öllum hugsanlegum þægindum. „Valdi borgar þetta allt saman. Ég er virkilega ánægður með valið. Enda er þetta ekki bara besta hótelið hér á Bene, heldur jafnframt það dýrasta. Sundlaugarnar hérna eru sennilega í hvað mestu uppáhaldi hjá mér þessa dagana, en þar er boðið upp á nudd af öllum gerðum. Það er eitthvað sem Keli mætti bæta við í sundlauginni heima.“

Jóhann er virkilega ánægður með gengi Sindra í deildinni og bikarnum, og er spenntur fyrir að snúa aftur til landsins. Hann segir hótelgesti ekki síður sátta með árangurinn, en hann hefur birt úrslit liðsins á töflu við hótelbarinn, þar sem gestir hafa stillt sér upp og látið taka myndir af sér, ásamt úrslitunum. „Fólk er að taka vel í þetta. Ég var með uppfærslu úr síðasta leik í beinni útsendingu á breiðtjaldi í matsalnum. Það vakti mikla lukku. Sérstaklega þegar Atli „ísbjörn“ Arnarson setti markið í lokin. Fólk hreinlega ærðist.“

Sindrafréttir þakka Jóhanni Bergi kærlega fyrir viðtalið. Það verður gaman að fylgjast með okkar manni þegar hann mætir aftur til leiks, en hann snýr aftur til landsins í nótt.

Þess má til gamans geta að Jóhann Bergur Kiesel er ekki bara leikmaður Sindra, heldur einnig fréttaritari og athafnamaður hjá Sindrafréttum.

Be the first to comment

Leave a Reply