Ríkharður Daðason til Sindra 2014? – viðtal við Auðun Helgason

Eins og flestir sem fylgjast með knattspyrnu vita, hefur Sindramaðurinn Auðun Helgason nýverið tekinn við þjálfun Fram, en hann og Ríkharður Daðason mynda öflugt þjálfarateimi í Safamýrinni. Við hjá Sindrafréttum létum þetta að sjálfsögðu ekki framhjá okkur fara og tókum stutt spjall við þennan öðling af manni.

„Óli Stefán pressaði á mig að skipta yfir í Sindra þegar það spurðist út að við værum að flytja austur,“ sagði Auðun aðspurður um hvernig það kom til að hann skipti yfir í Sindra. Hann var þó búinn að segja Óla að hann væri ekki í góðu standi fótboltalega séð, enda stutt síðan hann fór í aðgerð út af krossbandsslitum á vinstra hné. „Ég sagði við Óla að það væri til einskis að vera að skipta vegna þess að ég væri ekki leikfær, en hann gafst ekki upp. Það hentar kannski ágætlega að vera skráður í Sindra fyrst að ég er að flytja á Höfn og ætla að vera þar næstu árin.“

Það er mikil tilhlökkun hjá Auðuni að flytja austur og Höfn í Hornafirði er að hans eigin sögn nafli alheimsins. „Höfn er klárlega heitasti staður landsins um þessar mundir og ég hef heyrt um mikið af góðu fólki sem er búsett á Höfn. Það er aldrei að vita nema maður plati Rikka Daða með sér austur eftir sumarið,“ sagði Auðun léttur í bragði.

Ákvörðun Auðuns um að taka við Fram er umdeilanleg að mati Sindrafrétta, og ályktum við að hún hafi verið tekin í ölæði. Auðun var nefnilega í brúðkaupi fyrir vestan þegar hann fékk símtal frá Ríkharði Daðasyni sem að bauð honum að vera aðstoðarþjálfari hjá Fram. „Rikki vinur minn hafði samband við mig, en þá voru Fram búnir bjóða honum að taka við liðinu. Hann vildi ekki taka við því nema ef ég myndi vera með honum. Ég hef bæði réttindin fram yfir hann, og reynslu af þjálfun,“ sagði Auðun kokhraustur. „Hann þurfti að þrýsta vel á mig til þess að ég myndi taka starfinu því að ég var auðvitað með góða áskorun hjá Sindra í höndunum.“

En mun Auðun vera spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fram eða eru skórnir komnir á hilluna? „Ég hef séð það að ég er enganvegin nógu góður í hnénu til þess að fara að spila og það kemur ekki til greina að vera spilandi þjálfari Fram, enda var ég ekki fenginn til Fram sem leikmaður. Maður mun þó klárlega sprikla eitthvað með strákunum á æfingum í sumar og koma sér í stand fyrir næsta tímabil hjá Sindra. Það er ágætt að byrja rólega hjá Fram og koma sér í gang svo að maður komist inn í hörkugott lið Sindramanna.“

Auðun er mikill bókaormur og leggur hann lokahönd á lögfræðinám nú í haust. „Þegar ég tók ákvörðunina um að taka við Fram þá spilaði það mikið inn í að ég átti eftir að klára málflutningsréttindin núna í haust og hefði því stoppað stutt á Höfn í sumar.“ Auðun verður því að öllum líkindum sjálfbær og fær í flestann sjó þegar hann kemur austur eftir sumarið. „Ég hringdi í Óla Stefán á sunnudaginn og hann vissi alveg stöðuna á mér. En ég hlakka mikið til að koma á æfingar í Bárunni næsta vetur og bjóða Óla mína aðstoð á æfingum og reyna að miðla minni reynslu inn í hópinn,“ sagði Auðun.

Sindraliðið er með gríðarlega sterkan hóp þetta tímabilið, og er mestu skipað ungum leikmönnum. Reynsluboltarnir leynast þó þar á milli, en þar má helst nefna Gunnar Inga Valgeirsson og Sinisa Valdimar Kekic. Auðun vildi lítið tjá sig um það hvort hann yrði stærsta nafnið í röðum Sindramanna ef hann kæmist í hópinn. „Ég veit ekkert um það. Það verður bara hver og einn að dæma um það sjálfur.“

Be the first to comment

Leave a Reply