Fótboltaveisla framundan

Það má segja að kaflaskipti eigi sér nú stað sögu Sindrafrétta en nokkrir leikmenn úr meistaraflokki karla hafa tekið við síðunni og munu reyna að halda lífi í henni í einhverja stund. Okkur langar að þakka Ingva Ingólfs fyrir óeigingjarnt starf síðustu þrjú sumur og óskum honum góðs gengis í nýjum verkefnum. Við vonum þó að einhver með brennandi áhuga bjóði sig fram í fjölmiðlateymið og leggi hönd á plóg við að upplýsa okkar ástkæru stuðningsmönnum hvað er að gerast í boltanum hjá Sindra.

Mfl. kvk

Á morgun mæta Sindrastelpur Einherja í Mjólkurbikarnum. Leikurinn verður kl. 17:00 á Egilsstöðum. Sindrastelpur spila eins og allir vita í Inkasso deildinni en Einherji í 2.deild. Það hefur þó sýnt sig í gegnum tíðina að Einherjastelpur eru sýnd veiði en ekki gefin. Fótbolti.net spáði okkar stelpum 10. sæti í Inkasso deildinni og því mikilvægt að ná góðum úrslitum í fyrsta alvöru leiknum svo þær fái byr undir báða vængi fyrir komandi leiki í deildinni.

Hér er má sjá spá fotbolti.net: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=252443Mfl. kk

Mfl. karla spilaði einnig við Einherja í Mjólkurbikarnum 21. apríl síðastliðinn. Sindrastrákarnir þurftu að lúta lægri hlut gegn kraftmiklu liði Einherja sem spilar í sömu deild og Sindri. Lokatölur voru 2-5 fyrir Vopnfirðingum, en staðan var jöfn 2-2 eftir venjulegan leiktíma svo úrslitin réðust í uppbótartíma. Leikurinn virðist ekki hafa setið lengi í strákunum sem hafa náð góðum úrslitum í síðustu tveimur æfingarleikjum eftir bikarleikinn. Næstu helgi spila þeir svo sinn fyrsta leik í deildinni gegn KH á Valsvelli og ætla sér að sjálfsögðu að ná góðum úrslitum.

Hér má sjá leikjaplan meistaraflokkanna í maí og hvetjum við alla stuðningsmenn til að láta ekki sitt eftir liggja og mæta á völlinn að styðja okkar fólk!

Leikjaplan maí

Á næstu dögum verður ítarleg leikmannakynning á báðum liðum og stuðningsmannakvöld Sindra verður líklega 17. maí næstkomandi (auglýst síðar).