Stelpurnar sóttu stig og strákarnir reynslu

Sindrastelpur

Meistaraflokkur kvenna sótti sitt fyrsta stig í Inkasso deild kvenna til Hamranna á Akureyri um helgina. Sindrastelpur voru í töluverðum vandræðum með að ná í lið fyrir leikinn og komu Inga Dís Sigurðardóttir markvörður og Laufey Lára Höskuldsdóttir, sem spilaði með okkur í fyrra, liðinu til bjargar á ögurstundu svo við náðum að manna liðið og vorum með 12 grjótharðar stelpur í hóp í leiknum. Hamrastúlkur komust yfir á 34. mínútu í leiknum þegar ein þeirra náði að sóla sig í gegnum vörn okkar stelpna og koma boltanum í netið en minnstu mátti muna að Inga Dís næði að verja skotið. Sindrastelpur sýndu ótrúlegan karakter í leiknum og náðu að jafna einungis þremur mínútum síðar eftir glæsilega hornspyrnu frá Guðrúnu Ásu Aðalsteinsdóttur þar sem varð nokkurt klafs í teignum en á endanum fleygði Katelyn Nebesnik sér fyrir boltann sem féll fyrir fætur Laufeyjar Láru sem átti ekki í neinum vandræðum með að leggja hann í markið. Staðan í hálfleik var jöfn 1-1 en Hamrastelpur komust yfir aftur á 56. mínútu með skalla úr hornspyrnu. Sindrastelpur létu það ekki á sig fá og var endurkoma þeirra jafnvel enn glæsilegri í þetta skiptið þar sem þær tóku miðju beint á Katelyn sem lagði boltann í svæði fyrir aftan vörn Hamranna og þar var engin önnur en Nicole Maher mætt á harðaspretti og lagði boltann í netið. Lokatölur voru því 2-2 en Sindrastelpur eiga hrós skilið fyrir gríðarlega baráttu í leiknum og ótrúlegan karakter þar sem þær virtust bara eflast við mótlæti.

Sindrastrákar

Meistaraflokkur karla spilaði við KH á Valsvelli á Hlíðarenda sama dag. Staðan í leiknum var 0-0 eftir heldur daufan fyrri hálfleik en Sindramenn fengu þó nokkur góð færi. Á 47. mínútu komust KH yfir eftir hornspyrnu og þeir bættu við öðru marki úr vítaspyrnu á 80. mínútu. Sindramenn náðu að klóra í bakkann á 93. mínútu þegar Erlendur Rafnkell Svansson vann baráttu inni í teig eftir hornspyrnu. Á 94. mínútu bættu síðan KH menn við 3. markinu og gerðu út um vonir Sindra um að ná að krækja í stig í leiknum.

Stuðningsmannakvöld knattspyrnudeildar Sindra verður á fimmtudaginn kl. 20:00 á Pakkhúsinu og hvetjum við alla Sindramenn til að mæta og hita upp fyrir fyrstu heimaleikina og sumarið á Sindravöllum! Fyrstu heimaleikir liðanna verða á Sindravöllum næstkomandi laugardag. Kvennaliðið spilar kl. 13:00 og tekur á móti Haukum og karlaliðið fær Dalvík/Reyni í heimsókn kl. 16:00 og að sjálfsögðu mæta allir sem vettlingi geta valdið á völlinn og styðja íþróttafólkið okkar