Bjarga Sindrastrákar sér frá falli?

32912964_10214893682631373_3963700175016296448_n
Í síðasta leik Sindra fóru strákarnir með sigur af hólmi þar sem þeir unnu Augnablik 3-0. Virkilega kærkominn sigur þar sem Guðjón Bjarni og Stinni sáu um að skora mörk Sindramanna.

Sindri fékk til sín tvo leikmenn í glugganum sem eiga klárlega eftir að reynast liðinu vel í komandi leikjum. Annar þeirra er okkur góðkunnur og heitir Ingvi Ingólfsson. Hann kemur með gífurlega reynslu inn í varnarleik Sindramanna og það sást augljóslega í síðasta leik á Sindravöllum þar sem framherjar Augnabliks sáu aldrei til sólar. Eivinas Zagurskas  kom til Hornafjarðar rétt fyrir síðasta leik og átti virkilega góðan leik. Eivinas er 28 ára miðjumaður sem kom til Íslands 2017 og lék 8 leiki fyrir Víking Ó. í Pepsi deildinni og skoraði 1 mark. Hann varð þar fyrir því óláni að lenda í meiðslum og í ár færði hann sig til Stykkishólms og spilaði 10 leiki með Snæfell/UDN í 4.deildinni og skoraði þar 3 mörk. Hingað er hann svo kominn og ætlar að hjálpa Sindra að halda sér uppi í 3.deildinni.

eivinas

Á sunnudaginn næstkomandi fær mfl. karla til sín Knattspyrnufélag Fjallabyggðar (KF) í heimsókn. Það hefur verið óskaplega erfitt fyrir Sindrastráka að tengja saman tvo sigra í sumar og heldur betur kominn tími til þess á sunnudaginn. Sindrastrákar hafa unnið þrjá leiki í sumar og einn þeirra var einmitt á móti KF fyrir norðan.

Þrátt fyrir dapurt gengi undanfarið þá eru jákvæðir hlutir að eiga sér stað hér á Höfn í Hornafirði. Í leikmannahópi mfl. Sindra eru 18 uppaldir leikmenn sem hafa verið á skýrslu og í sumar hafa nokkrir leikmenn stigið sín fyrstu skref. Sigursteinn Már, Kristófer Hernandez og Oddleifur Eiríksson eru þar í fararbroddi og hafa staðið sig feykilega vel.

Við hjá Sindrafréttum hvetjum alla unga sem aldna til að mæta á Sindravelli 12. ágúst næstkomandi kl. 14:00 og styðja við bakið á þeim í risastórum sex stiga leik. Hægt er að sjá stöðuna í deildinni hér: https://urslit.net/#mot/420/stada

Ingvi Ingólfs