Síðustu heimaleikirnir um helgina!

Nú er tímabil mfl. karla nánast að líða undir lok. Eftir síðustu frétt hjá Sindrafréttum áttu strákarnir tvo gríðarlega mikilvæga leiki gegn KF af Tröllaskaganum og Ægi frá Þorlákshöfn. Sindrastrákar biðu lægri hlut gegn báðum þeim liðum. Botnbaráttan staðreynd og útlitið orðið frekar svart. Þeir tóku vel á móti mótlætinu og mættu tvíefldir til leiks gegn KV á heimavelli 25.ágúst síðastliðinn. Leikurinn endaði 3-1 fyrir heimamönnum. Mate kom Sindra á bragðið í fyrri hálfleik með frábæru marki. Í seinni hálfleik bættu strákarnir við tveimur mörkum frá Tómasi Leó og Eivinas.

Viku seinna mættu þeir í garðinn til Valda okkar á Samsung vellinum. Strákarnir voru ekki lengi setja tóninn, Zlatan og Kristófer Hernandez sáu um að koma Sindra í þægilega stöðu áður en þeir héldu í búningsklefann í hálfleik. KFG skoruðu síðan snemma í seinni hálfleik en Kristófer Hernandez svaraði því með góðu marki nokkrum mínutum seinna. Garðbæingar skoruðu annað mark í uppbótartíma og þar við sat. Sindrastrákar sóttu glæsilegan sigur 2-3 sigur á móti góðu liði KFG skipað nokkrum mjög reynslumiklum leikmönnum.

Þann 8.september næstkomandi taka Sindrastrákar á móti Einherja. Þeir hafa þurft að sætta sig við tvö töp gegn þeim í sumar á Mánavelli og Vopnafjarðarvelli. Það er ekki á dagskrá Sindrastráka að tapa gegn þeim þrisvar í sumar. Þetta er síðasti heimaleikur mfl.kk og með sigri á laugardaginn tryggja Sindramenn sæti sitt í 3. deildinni.

Meistaraflokkur kvenna tekur á móti toppliði Fylkis í Inkasso deildinni á sunnudaginn. Staða þessara liða er nokkuð ólík í deildinni en Fylkiskonur hafa þegar tryggt sér sæti í deild þeirra bestu að ári á meðan Sindrastelpur hafa þegar tryggt sér sæti í 2. deild að ári. Okkar stelpur hafa þó síður en svo lagt árar í bát og mæta tilbúnar til að berjast í hvern einasta leik og ætla sér að klára þetta sumar almennilega. Fylkisliðið er, eins og staða þeirra gefur til kynna, gríðarlega sterkt. Þær hafa lagt nokkur Pepsideildarlið á undirbúningstímabilinu og í bikarnum í sumar svo vonandi mætir Sindrafólk á völlinn og hjálpar stelpunum í þessu erfiða en skemmtilega verkefni.

Sindrafréttir hvetja alla sem vettlingi geta valdið að mæta á völlinn um helgina og styðja við bakið á meistaraflokkunum okkar í síðasta skipti á heimavelli í sumar!