Lengjubikarinn farinn af stað og nýjir leikmenn í liðið!

Nú er undirbúningur meistaraflokks karla í fullum gangi og því er tækifæri að leyfa stuðningsmönnum að skyggnast örlítið inn í gang mála. Liðið spilaði við Augnablik um síðustu helgi í Lengjubikarnum og endaði leikurinn með 2-0 sigri Sindramanna. Fyrra markið kom frá Mate eftir fínan undirbúning Stinna en seinna markið var sjálfsmark en Erlendur á allan heiðurinn af því með góðri baráttu.
Liðið hefur styrkt sig á undanförnum vikum en fjórir nýjir leikmenn hafa ákveðið að taka slaginn með strákunum í sumar. Sá fyrsti er Hornfirðingum vel kunnugur en það er enginn annar en Ásgrímur Arason. Ási byrjaði að æfa með hópnum í fyrra og eru mikil gleði tíðindi að hann vilji taka þetta alla leið og spila með liðinu í sumar. Anouar Safiani er annar sem Hornfirðingar ættu að kannast við en hann hefur búið á Höfn í nokkur ár. Sá þriðji heitir Ivan Eres og er frá Króatíu. Hann spilaði með Huginn seinasta sumar en bjó á Höfn. Sá fjórði heitir Mykolas Krasnovskis en hann kemur frá frændum okkar í Leikni Fáskrúðsfirði. Hann er frá Litháen og hittir hann því samlanda sinn og vin Robertas  sem kom til liðsins í fyrra.

Næsti leikur liðsins er næstkomandi laugardag kl 12:00 á Leiknisvelli(Reykjavík) gegn Þrótti Vogum. Við hvetjum alla sem hafa tök á að mæta og styðja strákana.