Ítarleg umfjöllun úr síðustu leikjum hjá mfl. karla og kvenna

Nú er Lengjubikarinn afstaðinn hjá bæði mfl. kvk og kk.

Meistaraflokkur karla hefur leikið fjóra leiki í Lengjubikarnum frá því að síðasta frétt var skrifuð.

Í byrjun mánaðar, nánar tiltekið 2. mars spiluðu Sindrastrákar gegn 2. deildar liði Þrótti Vogum. Leikurinn endaði 6-1 fyrir Þrótturum. Mark okkar Sindramanna gerði nýji leikmaðurinn okkar Mykolas í sínum fyrsta leik í rauðu treyjunni.

Hinn 16. mars síðastliðinn léku strákarnir gegn nýliðum í 3. deildinni, Kórdrengjum. Andstæðingarnir í þeim leik voru skipaðir afar öflugu liði karla sem hafa reynslu í efstu og næst efstu deild á Íslandi. Eftir að hafa lent þremur mörkum undir þá snéru okkar menn við taflinu og jöfnuðu leikinn í 3-3 með tveimur mörkum frá Mate og einu frá nýliðanum Mykolas. Leiknum lauk hins vegar 3-4 fyrir Kórdrengi sem skoruðu á lokamínútum leiksins, einum manni færri.

Eftir tvö ferðalög í Breiðholtið var komið að því að spila síðustu tvo leikina á Selfossi. Fyrri leikurinn var gegn 2. deildar liði Selfoss sem féllu úr 1. deildinni í fyrra. Það má segja að viðureignin hafi verið auðveld fyrir heimamenn sem skoruðu fimm mörk gegn einu. Mate skoraði fyrir strákana okkar úr víti.

Síðasti leikurinn í Lengjubikarnum var um helgina gegn 3. deildar liði KH. Leiknum lauk með góðum sigri Sindramanna, 2-1. Mörk okkar manna komu frá Kristni Snjólfs og Robertas.

Sindramenn enduðu í 5.sæti í sínum riðli með jafn mörg stig og 3. sætið. Það má segja að frammistaðan hafi verið heilt yfir þokkaleg miðað við úrslitin. Þjálfarinn, Ingvi Ingólfsson notaði 28 leikmenn í þessi verkefni og gaf 7 ungum leikmönnum tækifæri á að spila sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokki.

Ingvi Ingólfsson, þjálfari mfl. karla

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna hafa líka lokið keppni í Lengjubikarnum þetta árið. Eins og undanfarin ár var hópurinn þunnskipaður svo ákveðið var að tefla fram sameiginlegu liði Sindra og Einherja. Fjórar til fimm stelpur frá Einherja komu í hvert verkefni og stóðu sig gríðarlega vel þótt úrslitin hafi ekki verið með besta móti.

Fyrsti leikurinn var gegn sameiginlegu liði Fjarðabyggðar, Leiknis og Hattar og lauk honum með sigri andstæðinganna 7-2. Jóna Benný og Barbara Kopacsi skoruðu mörk Sindra/Einherja, en Barbara er ein af þeim leikmönnum sem komu inn í liðið í samstarfinu við Einherja.

Næsti leikur var gegn Völsungi og tapaðist hann 4-0 og að lokum var leikið á móti Hömrunum og tapaðist sá leikur 7-0 eftir nokkuð góðan fyrri hálfleik hjá okkar stelpum þar sem staðan var 0-1 í hálfleik en Hamrastelpur skoruðu undir blálokin á hálfleiknum.

Margar ungar og efnilegar stelpur tóku þátt í þessum verkefnum og má þar nefna að fjórar stelpur úr þriðja flokki Sindra léku með liðinu og tvær úr þriðja flokki Einherja að ógleymdri Karen Rós Torfadóttur markmanni úr fjórða flokki sem stóð í marki okkar liðs í öllum leikjunum.

Úr síðasta leiknum tóku stelpurnar með sér nýjan leikmann heim á Höfn sem skiptir til Sindra frá Einherja fyrir komandi tímabil, en það er Jovana Milikovic (Mili), öflug serbnesk stelpa sem er varnar/miðjumaður og stóð sig ákaflega vel í leikjunum þremur.  Þrátt fyrir slæma útreið í leikjunum þremur er útlitið gott fyrir sumarið, enda á liðið eftir að styrkjast gríðarlega á komandi vikum svo það verður spennandi að fylgjast með stelpunum í þeim verkefnum sem framundan eru.

Alexandre Fernandez Massot, þjálfari mfl. kvenna.