Alex Freyr Hilmarsson: Ég er nokkuð stoltur af því að hafa spilað með Sindra


Alex Freyr Hilmarsson er fyrsta kempan af mörgum sem við hjá Sindrafréttum ætlum að kynna fyrir ykkur í sumar. Umræddi leikmaður er að gera góða hluti í efstu deild á Íslandi og það verður gaman að sjá hvað hann gerir með félaginu sínu í sumar.

Alex Freyr hóf meistaraflokksferilinn sinn fyrir tæpum áratugi síðan með Sindra og lék þrjú tímabil með okkur. Í dag spilar Alex Freyr með stórveldinu KR í Pepsi Max deildinni en hann fór úr Sindra yfir í Grindavík árið 2011 og lék fjögur tímabil með þeim. Hann gekk svo í raðir Víkings R. árið 2015 og lék þrjú tímabil í Fossvoginum. Líkt og kom fram hér áðan þá er Alex kominn í KR og heldur betur búinn að ná langt á stuttum tíma.

Við hjá Sindrafréttum náðum að plata hann í að svara nokkrum spurningum og þökkum honum kærlega fyrir að gefa sér tíma í að svara þeim fyrir okkur.

Þú hefur átt frábærann feril en ef að þú ættir að velja eitt atvik sem að þú ert stoltastur af, hvaða atvik væri það? 

Það er svo sem ekki mikið af titlum eða öðru sem ég get státað mig af. En á sennilega eftir að verða stoltur á Íslands- og bikarmeistaratitlinum í sumar.

Hvað er skondnasta atvik ferilsins? 

Það var nokkuð skondið að fá að spila undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar!

Hverju sérðu mest eftir á þínum ferli?

Hefði átt að fara fyrr frá Grindavík!

Fylgistu mikið með fótbolta, og hvaða liðum fylgistu þá helst með?

Ég fylgist alveg töluvert með fótbolta, aðallega mínum mönnum í Arsenal og síðan mínum mönnum í Sindra, reyndar mætt á alltof fáa leiki síðustu ár. Síðan tekur maður alltaf stóru leikina í stærstu deildunum.

Hver er uppáhalds leikmaðurinn þinn í öllum heiminum?

Fredrik Ljungberg er minn maður þótt hann sé hættur. Bergkamp var líka helvíti flottur!

Ertu stolt/ur að hafa spilað fyrir Sindra?

Ég er nokkuð stoltur af því að hafa spilað með Sindra já, og verð alltaf stoltari og stoltari af því.

Hvernig finnst þér Sindraliðið vera þróast undir stjórn Ingva/Alexar?

Nú er frekar erfitt að segja þar sem lítið hefur reynt á það. En þetta byrjar vel hjá þeim! Það er alltaf góðs viti.

Hverjir eru þínir styrkleikar sem leikmaður? 

Skil leikinn nokkuð vel, hef góða tæki og er vinnusamur!

Finnst þér að Sindri þyrfti að gera einhvað betur?

Við þurfum að koma liðinu ofan í deildarkeppninni og búa til betri leikmenn!

Ef að þú værir að fara í útileik og þyrftir að deila hótelherbergi með einum leikmanni hver yrði fyrir valinu og af hverju? 

Ég myndi velja einhvern speking með mér, þannig við gætum rætt einhverja vitleysu saman. Datt Róbert Marwin fyrst í hug en hann er svo ruglaður.

Hver er steiktasti Sindrasamherji sem að þú hefur spilað með?

Þeir fyrstu sem koma upp í hugann eru Óskar Guðjón Óskarsson og Gunnar Ingi Valgeirsson, enda eru þeir báðir miklir meistarar.

Hver er besti Sindrasamherji sem að þú hefur spilað með?

Það var gaman að spila með Atla Haralds, hann er klár leikmaður. Síðan var Sævar Gunnarsson helvíti góður framherji.

Hver er besti mótherji sem að þú hefur spilað á móti? 

Eigum við ekki að segja Hannes Halldórsson

Hvernig leggst sumarið í þig?

Helvíti vel, nokkuð bjartsýnn fyrir sumarið.

Er einhvað sem þú vilt koma til skila hvað varðar unga Sindraleikmenn?

Bara leggja hart að sér og einbeita sér að hlutum sem þú sjálfur getur breytt eða lagað.

Svona í lokum er einhvað sem þú vilt koma á framfæri við stuðningsmenn Sindra?

Það hlýtur að vera að hvetja fólk að mæta á völlinn! Mynda geggjaða stemningu!

Við tökum undir síðustu orð kempunnar og hvetjum ykkur til að mæta á völlinn og búa til stemningu í sumar! Áfram Sindri!!!