Fyrsti sigurinn kominn í hús (mörkin og viðtöl)

Meistaraflokkur karla var í þann mund að klára að spila leik gegn Einherja frá Vopnafirði, í annarri umferð Íslandsmótsins. Leikurinn var vægast sagt hin mesta skemmtun, fullt af færum og þrjú mörk skoruð.

Vopnfirðingar skoruðu fyrsta mark leiksins á 11. mínútu en það tók heimamenn einungis 10 mínútur að jafna, þar að verki var vítaskyttan okkar, Mate Paponja sem skoraði örugglega úr víti eftir að Tómas Leó var tæklaður inn í teig. Þetta var hins vegar í annað sinn sem Mate steig á punktinn en hann brenndi af vítaspyrnu nokkrum mínútum áður.

Mate Paponja skoraði úr vítaspyrnu

Í seinni hálfleik byrjuðu heimamenn að krafti og hvert færið á fætur öðru fór forgörðum. Seinna mark okkar manna kom samt sem áður á 82. mínútu eftir góða sókn. Þar að verki var litháinn, Mykolas Krasnovskis.

Sindrastrákarnir unnu þar með sinn fyrsta leik í Íslandsmóti og segja má að sigurinn í dag hafi verið fyllilega verðskuldaður.

Sindri mætir Álftanes næstu helgi 18.5.2019 og hvetjum við stuðningsmenn okkar á höfuðborgarsvæðinu að mæta á Álftanesið og styðja okkar menn til sigurs!