Helgaruppgjör Sindrafrétta

Um síðustu helgi fóru fram tveir leikir hjá meistaraflokkum Sindra. Karlaliðið spilaði gegn Álftanesi í 3. umferð Íslandsmótsins og kvennaliðið lék gegn Gróttu í sínum fyrsta leik á Íslandsmótinu.

Sindrastrákar urðu að lúta í lægra haldi á útivelli gegn Álftanesi en lokatölur á Bessastaðavelli urðu 2-0 fyrir heimamenn.

Leikurinn byrjaði fremur rólega hjá báðum liðum og bæði lið áttu erfitt með að brjóta sér leið í átt að marki. Heimamenn fengu vítaspyrnu rétt fyrir leikhlé en vítaspyrnan fór yfir markið.

Í byrjun seinni hálfleiks fengu Sindrastrákar tækifæri til að komast yfir í leiknum þegar brotið var á Stinna inn í vítateig heimamanna. Stinni fór sjálfur á punktinn en hann lét markvörð Álftanes verja hjá sér. Það virðist hafa kviknað á heimamönnum, að hafa fengið á sig dæmda vítaspyrnu því í næstu sókn skoruðu þeir mark. Þeir juku svo forskotið tíu mínútum seinna með öðru marki.

Sindrastrákar fengu nokkur góð tækifæri í leiknum en inn vildi boltinn ekki. Lokatölur 2-0 og sanngjarn sigur Álftnesinga í höfn. Átta leikmenn fæddir eftir aldarmótin voru á leikskýrslu á laugardaginn og einn leikmaður úr þeim hópi kom inná í sínum fyrsta meistaraflokksleik, fæddur árið 2003. Leikmaðurinn sem um er að ræða er hinn efnilegi, Hermann Þór Ragnarsson og óskum við hjá Sindrafréttum honum innilega til hamingju með áfangann.

Mynd: Eyjólfur Garðasson

Meistaraflokkur kvenna spilaði í gær sinn fyrsta leik í Íslandsmóti gegn ógnarsterku liði Gróttu.

Heimastúlkur byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu tvö mörk á 3. og 4. mínútu fyrri hálfleiks. Eftir annað mark Gróttu sóttu Sindrastelpur í sig veðrið og spiluðu frábæran fótbolta allt fram 22. mín þá fengu þær dæmda á sig vítaspyrnu og heimastúlkur skoruðu úr henni. Rétt rúmri mínútu síðar fengu Sindrastelpur fjórða markið á sig. Sindrastelpur hættu ekki að spila flottan fótbolta og á 25.mín fékk Guðrún Ása boltann á vinstri kantinum, spólaði sig upp vænginn og gaf frábæra fyrirgjöf, beint á kollinn á Alexandra Taberner sem skallaði boltann í nærhornið. Fram að hálfleik voru Sindrastúlkur alltaf líklegar að bæta inn fleiri mörkum en það tókst því miður ekki.

Í seinni hálfleik átti heimaliðið fleiri færi og tókst þeim að bæta við þremur mörkum. Lokatölur 7-1 sigur Gróttu. Á leikskýrslu Sindra voru fjórar stúlkur að spila sinn fyrsta leik í rauðu treyjunni. Það voru Karen Lind Einarsdóttir, Brynhildur Sif Viktorsdóttir, Íris Gunnarsdóttir og Þórdís Ósk Ólafsdóttir. Stelpurnar eru allar fæddar árið 2002, nema sú síðastnefnda sem er fædd árið 2003 og koma þær frá Selfossi. Þær leika með sameiginlegu liði Selfoss, Sindra, Hamars, Ægis og KFR í 2. og 3. flokki og geta því tekið þátt í meistaraflokksleikjum með Sindra. Stelpunar stóðu sig ágætlega og það verður gaman að sjá þær í sumar í treyjunni okkar fögru. Það dró líka til tíðinda á 46. mín þegar Heba Björg Þórhallsdóttir kom inná. Heba hefur síðustu fjögur tímabil leikið með ÍR en er nú komin aftur í Sindra. Þessi mikli leiðtogi og reynslubolti á vonandi eftir að koma meira við sögu í sumar.

Næstu leikir hjá mfl. karla og kvenna eru nú skammt undan og erum við hjá Sindrafréttum bjartsýnir á góð úrslit hjá okkar fólki í næstu leikjum.

Næstu leikir:

Meistaraflokkur kvenna: 24.5.2019 – Fjarðab/Höttur/Leiknir – Sindri (Fjarðabyggðarhöllin)

Meistaraflokkur karla: 25.5.2019 – Sindri – Augnablik (Sindravellir)