Sindradagur knattspyrnudeildar

Gærdagurinn byrjaði á því að leikmenn meistaraflokka og yngri flokka knattspyrnudeildar Sindra brugðu á leik á Sindravöllum. Þar voru allskyns fótboltaþrautir og leikir og mikil gleði og gaman hjá öllum sem komu að þessum viðurði. Yngriflokkaráð grillaði síðan ofan í mannskapinn og sólin lék við fólk í skjólinu af íþróttahúsinu.

Stuningsmannahátíð knattspyrnudeildar Sindra er viðburður sem fer sífellt stækkandi. Fyrir tveimur árum síðan var hátíðin haldin í golfskálunum, í fyrra var hún haldin í Pakkhúsinu og nú í ár var hún haldin í Sindrabæ í gærkvöldi. Tæplega hundrað manns voru þar saman komin, leikmenn, þjálfarar, stjórnarfólk og stuðningsmenn og skemmtu sér konunglega.

Hluti af meistaraflokki kvenna. Mynd: Sverrir Aðalsteinsson

Boðið var upp á fordrykk og kjúklingasúpu og eftirrétt frá Pakkhúsinu, sem er einn af aðalstyrktaraðilum knattspyrnudeildar, og að sjálfsögðu voru ávörp, skemmtiatriði og ýmisskonar glens og grín. Veislustjórinn kom úr röðum meistaraflokks karla, Ásgrímur Arason, og fórst honum stjórnin ákaflega vel úr hendi, auk þess sem hann lék á píanóið undir borðhaldinu. Heiðursgest hátíðarinnar þarf vart að kynna fyrir Sindramönnum en það var Valdemar Einarsson. Hann átti nokkrar góðar sögur í pokahorninu sem glöddu gömul og ný Sindrahjörtu og þökkum við honum kærlega fyrir hans aðkomu að hátíðinni og fyrir hans störf fyrir knattspyrnudeildina í gegnum tíðina.

Valdemar Einarsson fór með góðar sögur

Ávörp voru flutt af formanni knattspyrnudeildar, Hjalta Þór Vignissyni og formanni yngriflokkaráðs Sigurði Ægi Birgissyni, þjálfarar voru með leikmannakynningar á sínum liðum og meistaraflokkur kvenna var með leiki þar sem viðstaddir fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína við að leysa hinar ýmsu þrautir. Stuðningsmannamyndband var spilað og leikmenn úr meistaraflokki karla léku undir Sindrasöngnum, en það voru þeir Oddleifur Eiríksson sem spilaði á harmonikku og tvíburarnir Björgvin og Júlíus Larssynir á gítar. Kvöldið endaði síðan með lifandi tónlist frá trúbadornum Øystein Magnús Gjerde. Sindradagurinn gaf góð fyrirheit fyrir komandi tímabil og það er von okkar í knattspyrnudeildinni að við náum að skapa rífandi stemningu á Sindravöllum í sumar með okkar frábæru stuðningsmönnum!

Oddleifur, Björgvin og Júlíus spiluðu undir Sindralaginu fræga. Mynd: Sverrir Aðalsteinsson.