Sindrastelpur byrja með stæl!

Meistaraflokkur kvenna lék í dag á móti Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í 1. umferð Mjólkurbikarsins. Alexandre Fernandez Massot, þjálfari Sindra, hafði sett skýr markmið fyrir leikinn um að halda hreinu, enda hafði liðið ekki haldið hreinu fyrir þennan leik síðan 11. ágúst 2017 á móti Víkingi Ólafsvík, eða í næstum tvö ár. Það er skemmst frá því að segja að það tókst og gott betur en það því okkar stelpur skoruðu einnig fjögur mörk í leiknum og fengu fjölmörg færi til að bæta við, m.a. vítaspyrnu og nokkur dauðafæri en voru því miður ekki á skotskónum allan tímann eins og gengur og gerist.

Alexandra Tabarner átti stórleik og skoraði þrennu ásamt því að leggja upp mark fyrir hina 15 ára gömlu Örnu Ósk Arnardóttur sem átti líka stórleik en hún lagði jafnframt upp eitt af mörkum Alexöndru og átti fjölmarga glæsilega spretti upp hægri kantinn.

Mars, Alex og Eli eru frábær viðbót við góðan hóp í kvennaliðinu

Það var virkilega skemmtilegt að horfa á stelpurnar á köflum og fínir taktar voru sýndir á vellinum. Sérstaklega verður þó að taka fram að síðasta mark Alexöndru var af dýrari gerðinni og við mælum með að þið kíkið á það og hin mörkin úr leiknum í samantektinni hér fyrir neðan.

Stelpurnar vilja koma á framfæri þökkum til okkar fjölmörgu og frábæru stuðningsmanna fyrir að koma á völlinn í dag í kuldanum og styðja liðið og sjá það sem koma skal í sumar!

Stuðningsmenn á Sindravöllum