Stelpurnar okkar eru úr leik í Mjólkurbikarnum

Meistaraflokkur kvenna fór skottúr á Húsavík síðatliðinn miðvikudag til þess að spila leik gegn Völsungi í annari umferð Mjólkurbikarsins.

Völlurinn var iðagrænn eins og gervigrasvellir eru oftast nær

Sindrastelpur byrjuðu leikinn af krafti og virtust vera með góða stjórn á honum. Þær sköpuðu sér nokkur góð færi, meðal annars átti Alexandra skot í slánna og Jóna Benný tók aukaspyrnu á skemmtilegum stað sem markmaður Völsungs náði því miður að verja. Á 41.mín fengu Völsungsstelpur víti sem þær skoruðu úr og staðan þá orðin 1-0 fyrir heimastelpur. Sindrastelpur spiluðu fyrri hálfleikinn vel en inn í markið vildi boltinn ekki.

Seinni hálfleikur virtist erfiðari fyrir okkar stelpur og áttu þær í meiri vandræðum með að ná stjórn á leiknum en í fyrri hálfleik. Annað mark hjá Völsungi kom á 64.mínútu, þar sem Krista Eik átti gott skot á markið sem Elian varði en eftir að boltinn fór af Elian þá rúllaði hann hægt inní markið. Okkar stelpur hættu aldrei að berjast og síðustu 25 mínúturnar af leiknum ógnuðu þær Völsungsstelpum rækilega, þær áttu nokkur góð færi en náðu ekki að gera mat úr þeim. Leikurinn endaði 2-0 Völsungi í vil.

Freyja Sól mætti með Sindrastelpum á sinn gamla heimavöll á Húsavík

Þetta var virkilega svekkjandi tap fyrir okkar stelpur þar sem þær spiluðu vel og börðust út allan leikinn. Stelpurnar geta tekið margt gott og jákvætt úr þessum leik, þá aðallega að liðsheildin skiptir mjög miklu máli og það er mikilvægt fyrir alla leikmenn liðsins utan sem innan vallar að berjast fyrir hverja aðra frammá lokamínútu. Þetta verður spennandi og áhugavert fótboltasumar hjá okkar stelpum og hvet ég alla að koma á völlinn að horfa á þær spila.

Næsti leikur er sunnudaginn 19. maí gegn Gróttu í 2.deild kvenna. Leikurinn er jafnframt fyrsti leikurinn þeirra í deildinni og við hvetjum alla á höfuðborgarsvæðinu til að mæta kl. 14:00!

Myndir og texti: Þórdís Ösp Cummings.