Tap í fyrsta leik hjá mfl. karla

Meistaraflokkur karla fór suður með sjó og spilaði í leik gegn Reyni Sandgerði í gær í fyrstu umferð Íslandsmótsins.

Sindramenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og sköpuðu þeir sér mörg góð færi. Á 25. mínútu dró svo til tíðinda þegar Reynismenn áttu góða sendingu inn fyrir vörn Sindramanna og skoruðu úr góðu skoti. Sindrastrákar reyndu allt sem þeir gátu til að jafna metin en inn vildi boltinn ekki.

Tómas Leó í baráttunni

Í seinni hálfleik héldu Sindramenn áfram að herja á Reynismenn en án árangurs. Á 70. mínútu bættu heimamenn við marki eftir hornspyrnu. Sindramenn lögðu aldrei árar í bát og minnkuðu muninn á 80. mínútu. Þar að verki var Mate Paponja eftir góða sendingu frá Guðjóni Bjarna. Á 90. mínútu bættu Reynismenn við þriðja markinu.

Leiknum lauk 3-1 og voru það mikil vonbrigði miðað við frammistöðu Sindramanna. Sindrastrákar geta hins vegar tekið margt jákvætt úr leiknum og ef þeir byggja ofan á þessa frammistöðu verða úrslitin þeim í hag í framtíðinni.