Þrjú stig í vasann (viðtöl)

Meistaraflokkur karla tók á móti KH síðasta sunnudag í 7. umferð Íslandsmótsins. Leikurinn var annar heimaleikur strákanna í röð og voru þeir fyrir leikinn taplausir á heimavelli, í deildarkeppni.

Ingvi Ingólfsson, þjálfari Sindramanna stillti upp sama byrjunarliði og í síðasta leik. Það tók Sindramenn ekki nema 17. mínútur að brjóta ísinn en þar á ferðinni var Tómas Leó Ásgeirsson sem skoraði eftir sendingu frá Robertas. Á 23. mínútu kom Guðjón Bjarni upp hægri vænginn og smellti boltanum í fjær hornið, óverjandi fyrir markmann KH, 2-0. Tveimur mínútum seinna var Tómas Leó kominn upp hægri vænginn og gaf góða sendingu á fjær þar sem Stinni var mættur til að klára færið, 3-0. Á 35. mínútu dró svo aftur til tíðinda en þá var brotið á Tómasi fyrir utan teig. Hann tók spyrnuna sjálfur og smell hitti boltann beint yfir varnavegg KH og í hornið, 4-0. Þorlákur Helgi varð síðan fyrir því óláni mínútu seinna að skora sjálfsmark eftir hættulega hornspyrnu KH.

Robertas Freidgeimas skoraði tvö af sex mörkum Sindra.

Til að fullkomna þennan fyrri hálfleik okkar manna þá tók Robertas Freidgeimas til sinna ráða og bætti við tveimur mörkum á 38. og 40. mínútu. Fyrra markið var skorað eftir að Stinni tók hlaup upp vænginn og kom boltanum inn í vítateig KH, þar var Robertas mættur og afgreiddi boltann vel í markið, 5-1. Seinna markið hjá Robertas kom svo eftir að boltinn barst til hans í teignum og þar átti hann skot í slánna og fylgdi svo eftir með þrumu skoti beint í markið.

Staðan var 6-1 í hálfleik og brekkan fyrir KH orðin ansi brött. Gestirnir voru meðvitaðir um það en voru svo sannarlega mættir til leiks því þeir byrjuðu á að skora mark gegn okkar mönnum á 51. mínútu og staðan orðin 6-2. Þeir stigu hærra á völlinn og voru mun meira með boltann en heimamenn. Á 90. mín skoruðu þeir svo þriðja mark sitt og þar við sat. Leikurinn endaði 6-3 og stórsigur Sindra staðreynd eftir magnaðan fyrri hálfleik.