Stigin standa aðeins á sér

Meistaraflokkur karla lagði land undir fót á föstudaginn og lék á laugardaginn gegn Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar (KF). Heimamenn voru fyrir leik í efsta sæti og Sindramenn í 9. sæti.

Sindrastrákar byrjuðu leikinn af krafti og sköpuðu sér nokkur hálffæri sem þeir náðu ekki að nýta sér. Það dró til tíðinda á 24. mín þegar heimamenn fengu vítaspyrnu. Alexander Már Þorláksson skoraði úr henni og staðan orðin 1-0. Besta færi Sindramann kom undir lok fyrri hálfleiks en þeir áttu gott spil sem endaði með góðu skoti í tréverkið.

Sindramenn gerðu tvær skiptingar í hálfleik, Bragi og Elli fóru útaf og inná komu Guðjón og Stinni. Í seinni hálfleik spiluðu Sindramenn með vindi og voru mun líklegri til að jafna en að heimamenn myndu bæta við. Ingvi Þór þurfti að fara meiddur af velli í byrjun seinni hálfleiks eftir að hafa lent illa á ökklanum. Ásgrímur Arason kom inná í hans stað.

Á 70. mín jafna okkar menn og þar að verki var Mykolas en hann skoraði glæsilegt mark eftir að hafa spólað sig í gegnum vörnina. Á 72. mínútu gerði Sindri síðustu skiptinguna sína, Kristófer Hernandez fór útaf og inná kom Oddleifur. Jafnræði var með liðum eftir jöfnunarmarkið en á síðustu tíu mínútum leiksins lágu KF á okkar mönnum og uppskáru mark úr hornspyrnu á loka sekúndum leiksins, 2-1.

Virkilega svekkjandi tap og jafntefli hefði eflaust verið sanngjörn úrslit. Næstu tveir leikir hjá mfl. karla eru heimaleikir og þurfa þeir að sækja öll þau stig sem eru í boði ef þeir ætla ekki að hanga í neðri helmingnum í sumar.

Meistaraflokkur kvenna fór í þriggja vikna frí eftir leikinn sinn þar síðustu helgi. Stelpurnar léku við Fjarðabyggð/Hött/Leikni (24.5.2019) á Reyðarfirði og lutu í lægra haldi 2-0 en áttu þó góða sénsa á skora í leiknum og sýndu góða baráttu. Nokkra lykilleikmenn vantaði í liðið en Elian markvörður var ekki með og Mili ekki heldur. Erla Dís stóð vaktina með mikilli prýði í markinu og það sýndi sig að í góðum hóp kemur maður í manns stað!

Næstu leikir hjá mfl. karla og kvenna eru nú skammt undan og erum við hjá Sindrafréttum mjög bjartsýnir á góð úrslit hjá okkar fólki í næstu leikjum.

Áfram Sindri

Næstu leikir:

Meistaraflokkur karla: 10.6.2019 – Sindri – Skallagrímur (Sindravellir)

Meistaraflokkur kvenna: 14.6.2019 – Sindri – Leiknir R. (Sindravellir)