Sindramenn með stórsigur (mörkin og viðtal)

Meistaraflokkur karla tók í gær á móti liði Skallagríms frá Borganesi. Í ár eru átján ár frá því að Borgnesingar komu síðast í heimsókn á Hornafjörð.

Það dró strax til tíðinda á 2. mínútu leiksins þegar aðstoðardómari leiksins meiddist. Það tók ekki langan tíma að finna mann í hans stað því að Haraldur okkar Jónsson var í stúkunni. Eftir fáeinar mínútur flautaði dómarinn aftur leikinn í gang.

Sindri náði forystunni á 18. mínútu leiksins þegar Mate Paponja skoraði fyrir liðið gott mark eftir að hafa leikið sér aðeins að vörn gestanna. Þremur mínútum seinna var Mate aftur á ferðinni fyrir framan mark gestanna og í stað þess að klára sóknina sjálfur, lagði hann boltann á Tómas Leó Ásgeirsson sem kláraði færið vel.

Á 31. mínútu minnkuðu gestirnir munin. Kristófer Daði var fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Á 43. mínútu skoraði Robertas Freidgeimas þriðja mark Sindra eftir frábæran undirbúning frá Tómasi Leó. Tveimur mínútum seinna bætti Kristinn Snjólfsson við marki rétt fyrir hálfleik eftir góða sendingu frá Mykolas og staðan 4-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hléinu.

Í seinni hálfleik byrjuðu gestirnir að færa sig framar á völlinn í von um að minnka munin. Þeim tókst það svo á 74. mínútu þegar Skúli Pálsson fylgdi eftir skoti að marki. Kristinn Snjólfsson rak svo síðasta naglann í kistu Borgnesinga á 85. mínútu og lokatölur í leiknum 5-2.

Frábær sigur heimamanna staðreynd og halda þeir áfram að vera taplausir á heimavelli. Næstu helgi taka þeir svo á móti liði KH sem sitja á botni 3. deildar.