Tveir heimasigrar á Humarhátíð (viðtöl við leikmenn og þjálfara)

Það má með sanni segja að Humarhátíðin hafi farið vel í mfl. karla og kvenna. Bæði liðin sóttu þrjú mikilvæg stig í Íslandsmótinu.

Meistaraflokkur karla sigraði Hött/Huginn síðstliðinn fimmtudag 3-2. Það dró strax til tíðinda á 12. mín þegar Kristinn Snjólfsson skoraði með skoti fyrir utan teig, 1-0 fyrir heimamenn. Þjálfarinn Ingvi Ingólfsson bætti síðan við öðru marki á 39. mínútu þegar hann skallaði boltann í fjærhornið eftir hornspyrnu. Ivan Bubalo náði síðan að minnka muninn fyrir gestina rétt fyrir hálfleik og staðan 2-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Ingvi Ingólfsson skoraði úr góðum skalla og markinu var vel fagnað.

Í síðari hálfleik mættu gestirnir ákveðnari til leiks og náðu að jafna metin á 56. mínútu. Sindramenn voru þó ekki hættir og sköpuðu sér nokkrar ágætar sóknir eftir það og það kom svo að því að Tómas Leó skoraði beint úr aukaspyrnu á 76. mínútu. Frábær 3-2 sigur á erkifjendunum í Hetti/Huginn og Sindramenn eru því enn ósigraðir á heimavelli í deildinni.


Tómas Leó tryggði Sindra sigurinn með marki beint úr aukaspyrnu!

Meistaraflokkur kvenna sigraði í gær Hamrana 1-0. Sindrastelpur léku undan vindi í fyrri hálfleik og voru talsvert meira með boltann. Þær náðu að skapa sér nokkur góð færi en lið Hamranna sá við þeim með góðum varnarleik. Staðan var 0-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Í síðari hálfleik mættu Sindrastelpur ákveðnari til leiks og voru alltaf líklegri til að skora fyrstu mínúturnar. Eftir nokkar góðar sóknir okkar stelpna kom svo loksins að því að boltinn myndi syngja í netinu þegar Jóna Benný sendir boltann í gegnum vörn gestanna og framherjinn, Alexandra Taberner tekur boltann með sér og leggur hann snyrtilega framhjá markverði gestanna. Markið kom á 52 mínútu og eftir markið breyttist leikurinn talsvert. Gestirnir sóttu aðeins í sig veðrið og sóttu nokkrum sinnum á mark okkar stelpna. Það kom ekki að sök því lið Sindrastelpna spilaði frábæran varnaleik og náðu að sigla sigrinum í höfn.

Stelpunar okkar eru ósigraðar á heimavelli í sumar!