Frábær sigur hjá mfl. kvenna (mörkin)

Meistaraflokkur kvenna spiluðu gegn Gróttu í 11. umferð í Íslandsmóti í gær og unnu frækinn sigur.

Sindrastelpur byrjuðu leikinn af miklum krafti og sköpuðu sér nokkur frábær færi en markvörður Gróttu varði vel. Staðan var 0-0 þegar bæði lið gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Á 54. mín dró til tíðinda þegar Ólöf María spilar á systur sína Örnu sem tekur sprettinn upp hægri vænginn og leikur á einn leikmann Gróttu áður en hún skýtur boltanum í fjær hornið yfir markvörð Gróttu og staðan 1-0. Gestirnir jafna metin sex mínútum seinna með marki frá Tacianu Da Silva. Heimastelpurnar settu svo í annan gír og keyrðu á Gróttu stelpurnar. Annað mark okkar kom svo á 67. mín þegar Guðrún Ása vinnur boltann á vinstri vængnum. Hún fer á fulla ferð í átt að marki og leggur boltann snyrtilega framhjá markverði Gróttu og staðan 2-1.

Lokamínútur leiksins voru spennandi. Gróttastelpur sóttu aðeins á okkur en liðið spilaði frábæran varnaleik og tókst að sigla góðum 2-1 sigri í höfn!