Fyrsti sigur hjá mfl. karla á útivelli og nýr leikmaður!

Meistaraflokkur karla spilaði gegn Augnablik miðvikudaginn 31. ágúst í Fagralundi og unnu þeir leikinn 2-3. Sindramenn voru ákveðnir í að eiga betri leik en þeir áttu heima nokkrum dögum áður þar sem þeir steinlágu fyrir Álftanesi, 1-5 á heimavelli.

Það var jafnræði með liðum í byrjun hálfleiks en Sindramenn fengu nokkur færi sem þeir hefðu mátt nýta. Staðan var 0-0 þegar bæði lið gengu til búningsherbergja.

Hermann byrjaði leikinn og gaf ekkert eftir á miðjunni!

Seinni hálfleikur var aðeins líflegri. Á 63. mínútu fengu Augnabliksmenn vítaspyrnu en Róbert Marwin varði hana. Dómari leiksins lét hins vegar Augnablik endurtaka spyrnuna þar sem hann þótti Róbert stíga full langt af línunni. Þeir skoruðu úr henni og staðan orðin 1-0. Rétt rúmum tíu mínútum seinna bættu Augnabliksmenn við marki og staðan 2-0. Sindrastrákar voru ekki á því að gefast upp og Þorlákur Helgi minnkaði muninn með skalla úr hornspyrnu á 77. mínútu. Kristinn Snjólfsson jafnaði metin á 82. mín með fínum skalla eftir sendingu frá Kristófer Daða og staðan 2-2. Sindramenn kláruðu svo leikinn þegar Tómas Leó skoraði sigurmark Sindra á 84. mín með góðu skoti rétt fyrir utan teig eftir sendingu frá Kristni sem náði að stela boltanum af miðverði Augnabliks.

Tómas og Stinni sáttir með stigin þrjú

Fyrsti útisigur Sindrastráka staðreynd og sigurinn gefur þeim vonandi byr undir báða vængi fyrir næsta leik sem verður á Sindravöllum gegn KF, laugardaginn 10. ágúst. Nýr leikmaður mun að öllum líkindum spila sinn fyrsta leik með Sindrastrákum á laugardaginn. Abdul Jay Jay Bangura er 23 ára gamall og kemur frá Víking Ólafsvík en hann er frá Sierra Leone og er framliggjandi miðjumaður.

Abdul Jay Jay Bangura á eftir boltanum

Við hvetjum alla til að mæta á leikinn og styðja okkar stráka til sigurs.

Meistaraflokkur kvenna á leik fyrir norðan gegn Hömrunum sama dag og óskum við stelpunum góðs gengis!