Fjörið er byrjað á Sindravöllum

Þrír leikir voru spilaðir í blíðskaparveðri á Sindravöllum á mánudaginn og var stúkan okkar nær full frá kl. 12:00 – 18:00.

4. flokkur kvenna eru skráðar í A lið og tóku á móti einu sterkasta liði riðilsins, Fylki frá Reykjavík. Stelpurnar byrjuðu leikinn af krafti og mættu ákveðnar til leiks. Það voru hins vegar Fylkisstelpur sem brutu ísinn um miðjan fyrri hálfleik og skoruðu fyrsta mark leiksins. Okkar stelpur áttu nokkur góð færi áður en dómarinn blés til hálfleiks.

Í seinni hálfleik tóku gestirnir völdin og bættu við þremur mörkum. Leikurinn endaði 0-4 fyrir gestina. Þrátt fyrir tapið þá verður að taka það inn í myndina að allur hópurinn hefur lítið sem ekkert æft saman því nokkrir leikmenn liðsins eru frá Djúpavogi. Það verður gaman að fylgjast með stelpunum vaxa og dafna í sumar því þær eru í gríðalega sterkum og skemmtilegum riðli. Næsti leikur hjá stelpunum er á Djúpavogi 11. júní á móti KFF.

4. fl kvenna

5. flokkur karla tóku á móti Hattarmönnum strax eftir kvennaleikinn. Leikurinn byrjaði af rosalegum krafti og sóttu bæði lið mikið. Það voru hinsvegar okkar strákar sem voru fyrri til að skora og kom fyrsta mark leiksins eftir góða sókn snemma í fyrri hálfleik. Í leiknum var jafnræði með liðum en markmenn beggja liða voru vel á verðinum. Leikurinn endaði með góðum 4-2 sigri okkar manna. Næsti leikur hjá strákunum er á Dalvik 13. júní.

5. fl karla

3. flokkur karla tók á móti feyki sterku liði sem kallar sig Austurland. Lið andstæðingana var skipað flottum strákum úr nokkrum ef ekki öllum þorpum Austurlands. Sindrastrákarnir okkar eru einnig með skemmtilegan og efnilegan hóp leikmanna. Það má til gamans geta að þrír þeirra tóku þátt fyrir nokkrum dögum síðan í æfingaleik hjá meistaraflokki Sindra og stóðu sig með prýði. Jafnræði var með liðum og voru okkar menn vel skipulagðir í fyrri hálfleik og staðan 0-1 í fyrri hálfleik. Mótherjinn var einfaldlega of sterkur í síðari hálfleik og endaði leikurinn 0-8. Næsti leikur hjá 3. fl karla er í bikarnum á móti Aftureldingu heima á Sindravöllum, 7. júní.