Hin hliðin – Óli Stefán Flóventsson

Sindri verður alltaf í hjartastað vegna þess að ég fékk þar mitt fyrsta þjálfaratækifæri.

Óla Stefán Flóventsson ættu flestir á Höfn að þekkja enda þjálfaði hann Sindraliðið frá árinu 2009 til 2015 með góðum árangri. Í Sindra var hann spilandi þjálfari og lék 85 leiki í öllum keppnum fyrir Sindra. Í dag þjálfar hann lið KA í Pepsi Max deild karla.

Við hjá Sindrafréttum viljum óska honum og KA góðu gengi í sumar og þökkum honum fyrir að gefa sér tíma í að svara þessu.


Þú hefur átt frábærann feril en ef að þú ættir að velja eitt atvik sem að þú ert stoltastur af, hvaða atvik væri það? 

Sem leikmaður eru það evrópuleikirnir með Grindavík og markið mitt þar. Sem þjálfari er það að fara upp um deildir með Sindra og Grindavík.

Hvað er skondnasta atvik ferilsins? 

Festist undir auglýsingaskilti eftir eina tæklinguna þegar ég rann útaf vellinum. Þurfti kúbein og hamra til að losa mig sem tók alveg 5 mínútur.

Hverju sérðu mest eftir á þínum ferli?

Að hafa ekki sett tappann í flöskuna fyrr. Hefði verið forvitnilegt að sjá hvort ég hefði ekki náð lengra.

Fylgistu mikið með fótbolta, og hvaða liðum fylgistu þá helst með?

Já mjög mikið. Horfi mikið að Þýska og Ítalska boltann en þar eru mín lið Dortmund og Juventus. Enski fylgir auðvitað líka en þar sem ég er Arsenal maður tala ég ekki mikið um hann.

Hver er uppáhalds leikmaðurinn þinn í öllum heiminum?

Leonardo Bonucci.

Ertu stolt/ur að hafa spilað fyrir Sindra?

Sindri verður alltaf í hjartastað vegna þess að ég fékk þar mitt fyrsta þjálfaratækifæri. Ég spilaði líka nokkra leiki og naut hverrar mínútu með liðinu.

Hvernig finnst þér Sindraliðið vera þróast undir stjórn Ingva/Vesko?

Ég hef fylgst með liðinu síðustu ár. Á þessum tíma hafa átt sér stað mikil kynslóðaskipti. Nánast allir þeir sem ég þjálfaði eru hættir en þeir sem voru að taka sín fyrstu skref hjá mér og voru stórir póstar í 2.flokks liði okkar eru núna þjálfari og lykilleikmenn. Ég held að þessir strákar séu núna tilbúnir að taka liðið á næsta level.

Stelpurnar eru á góðu róli í þeirri vinnu sem þar er í gangi. Ég hef heyrt góðar sögur af Vesko og þá er mikilvægt að vera þolinmóð og styðja þær vel því þar eru spennandi stelpur að koma upp.  

Hverjir voru/eru þínir styrkleikar sem leikmaður? 

Held að það hafi verið leikskilningur.

Finnst þér að Sindri þyrfti að gera einhvað betur?

Halda áfram að hlúa að ungum leikmönnum. Halda áfram að hlúa að aðstöðu og umgjörð og klárlega setja gervigras á aðalvöllinn.

Ef að þú værir að fara í útileik og þyrftir að deila hótelherbergi með einum leikmanni hver yrði fyrir valinu og af hverju? 

Steindór Sigurjónsson yrði alltaf efstur á blaði hjá mér. Sögustund með Steindóri er engu líkt.

Hver er steiktasti Sindrasamherji sem að þú hefur spilað með?

Óskar Guðjón Óskarsson er einhver almesti snillingur sem ég hef kynnst, þó hann sé United maður.

Hver er besti Sindrasamherji sem að þú hefur spilað með?

Ég spilaði með þeim nokkrum en Gunnar Ingi er sá besti. Ef allir leikmenn Sindra hefðu hans hugafar væri liðið í frábærum málum.

Hver er besti mótherji sem að þú hefur spilað á móti? 

Ég held að ég verði að segja Gummi Ben. Fólk þekkir hann í dag sem frábæran íþróttafréttamann en Gummi var sturlaður leikmaður hér áður og hefði náð langt ef hann hefði ekki meiðst illa í hné. Ég náði líka að spila á móti Arnóri Guðjónsen (pabba Eiðs Smára) Hann var líka frábær.

Hvernig leggst sumarið í þig?

Ótrúlega vel.

Er einhvað sem þú vilt koma til skila hvað varðar unga Sindraleikmenn?

Temja sér gott æfingahugarfar því ef þið æfið ekki eins og meistarar á öllum æfingum þá fer dýrmætur æfingatími til spillis. Alltaf að hugsa um það að vera örlítið betri eftir æfingu heldur en maður var í byrjun æfingarinnar.

Svona í lokum er einhvað sem þú vilt koma á framfæri við stuðningsmenn Sindra?

Styðjið liðið í gegnum súrt og sætt.